Dagskrá 2025

Lagadagurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica föstudaginn 10. október.

Aðalmálstofa kl. 10.00 -12.00

Lýðræði á tímamótum? 

Andstaða við grundvallarþætti lýðræðisins, eins og við þekkjum það, fer vaxandi og hugmyndafræði lýðræðis á víða undir högg að sækja. Hvaða áhrif hefur lýðræðisþróun í Evrópu og Bandaríkjunum á Ísland og er hætta á að við drögumst með í kjölsoginu? Hvaða óveðursský eru á lofti og hvað veldur? Hvernig tæki Stjórnarskrá Íslands á málum og hverjir eru öryggisventlarnir? Sjónum verður beint að samspili lýðræðis og réttarríkisins, þrískiptingu ríkisvaldsins, valddreifingu og temprun valds. Jafnframt verður fjallað um neyðarrétt og viðbragðshæfni íslenskrar löggjafar á óróatímum, hlutverk dómstóla við viðhald lýðræðislegra stofnana og getu þeirra til að spyrna við fótum. 

Málstofustjóri 

  • Birgir Ármannsson lögmaður og fyrrum forseti Alþingis. 

 Framsögumenn  

  • Dr. Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands. 
  • Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík. 
  • Dr. Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

Pallborð  

  • Pawel Bartoszek, alþingismaður, formaður utanríkismálanefndar. 
  • Dr. Róbert Haraldsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. 

  ______________________________________________________________________________________________________________________________

 Í hádeginu verður boðið upp á "götugóðgæti" að hætti VOX

____________________________________________________________________________________________________________________________ 

Málstofur og rökstólar kl. 13.00 -14.30
 

I. Þrítugur EES samningur – Nægjanlega sveigjanlegur í síbreytilegum heimi? 

Á málstofunni verður leitast við að ræða stöðu EES samningsins í tilefni af 30 ára afmæli hans, hvernig hann hafi þróast og hver sé staða hans í dag. Hefur Ísland tækifæri til að hafa áhrif á mótun samningsins? Einnig verður fjallað um ýmis álitaefni sem Alþingi hefur tekist á við, s.s. þriðja orkupakkann og bókun 35. Þá hafa umræður um gullhúðun EES löggjafar verið áberandi. Jafnframt verður rætt hvert sé hlutverk dómstóla í mótun EES réttar og hvort þekking á sviðinu sé nægjanleg á meðal lögfræðinga. 

 Málstofustjóri  

  • Dr. Margrét Einarsdóttir, prófessor við Lagadeild Háskólans í Reykjavík. 

 Framsögumenn  

  • Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra. 
  • Dr. Gunnar Þór Pétursson, forseti Lagadeildar Háskólans í Reykjavík. 
  • Jónína Sigrún Lárusdóttir, framkvæmdastjóri innri markaðssviðs ESA. 

 Pallborð  

  • Andrés Fjeldsted, regluvörður Arion banka. 
  • Björn L. Bergsson, héraðsdómari. 

 ______________________________________________________________________________________________________________________________ 

 

II. Aðild brotaþola að sakamálum

Með lögum nr. 61/2022 voru gerðar veigamiklar breytingar á réttarstöðu brotaþola við meðferð sakamála, á rannsóknarstigi og fyrir dómi. Með þeim var réttarstaða brotaþola færð nær réttarstöðu sakbornings án þess þó að brotaþoli væri gerður að beinum aðila sakamáls. Spyrja má hvort þær breytingar hafi gengið nægilega langt eða á ef til vill að ganga lengra í því að jafna stöðu brotaþola og sakbornings við meðferð sakamála? Hverjir væru kostir þess og gallar að gera brotaþola að beinum aðila sakamáls? Væri það æskilegt eða óæskilegt, frá sjónarhorni sakbornings, ákæruvalds eða brotaþola sjálfs og samrýmist það hlutlægnisskyldu ákæruvaldsins? Á sama hátt má spyrja hvort þær breytingar sem gerðar hafa verið til þessa hafi ef til vill gengið of langt með tilliti til hagsmuna sakbornings? Einnig má spyrja hvernig lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum hefur gengið að laga sig að þeim breytingum sem fólust í lögum nr. 61/2022? Er framkvæmdin mögulega mismunandi eftir embættum? Þá má enn fremur spyrja hvort hlutverk réttargæslumanna sé nægilega skýrt eftir lagabreytingarnar? 

Málstofustjóri  

  •  Jóhannes Rúnar Jóhannsson, héraðsdómari.  

Framsögumaður  

  • Hildur Fjóla Antonsdóttir, lektor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.  

Pallborð  

  • Hulda María Stefánsdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara. 
  • Sigríður Elsa Kjartansdóttir, héraðsdómari. 
  • Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður. 
  • Valgerður Valdimarsdóttir, lögmaður á Megin lögmannsstofu. 

______________________________________________________________________________________________________________________________ 

III. Vinnumarkaðsmódelið 

Hvaða lagaskilyrði þurfa stéttarfélög að uppfylla til að geta tekið þátt í kjarasamningsgerð og hvernig hafa þau verið túlkuð í framkvæmd? Dugir lagaumgjörðin til að verja samningsrétt launafólks á vinnumarkaði eða er þörf sé á breytingum til að styrkja hlutverk stéttarfélaga og tryggja að kjarasamningar séu gerðir af aðilum sem hafa sannanlegt umboð launafólks? Hvenær er félag viðurkennt sem stéttarfélag með samningsrétt?  

Málstofustjóri  

  • Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur BSRB. 

Framsögumenn  

  • Oddur Ástráðsson, lögmaður á Rétti - Aðalsteinsson & partners. 
  • Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins. 
  • Sindri M. Stephensen, settur dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og dósent við Lagadeild Háskólans í Reykjavík.

 

______________________________________________________________________________________________________________________________ 

Málstofur og rökstólar kl. 15.00 -16.00

IV. Hvað eru góð lög?

Gefin verður innsýn í undirbúning lagafrumvarpa og fjallað um hvað þurfi koma til svo frumvörp lifi milli löggjafarþinga. Hv telst grundvallarbreyting á frumvarpi til laga? Hvernig getur gervigreindin nýst og bætt gæði lagasetningar?   

Málstofustjóri  

  • Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. 

Framsögumenn  

  • Elín Ósk Helgadóttir, deildarstjóri nefndardeildar Alþingis og kennari við Háskólann í Reykjavík. 
  • Hafdís Ólafsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu löggjafarmála í dómsmálaráðuneytinu og kennari við Háskólann í Reykjavík. 
  • Haraldur Steinþórsson, lögfræðingur á skrifstofu yfirstjórnar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

______________________________________________________________________________________________________________________________ 

 

V. Af vettvangi fjölskylduréttar: Er sanngjarnt að halda lífeyrisréttindum hjóna utan fjárskipta?

Verðmæti lífeyrisréttinda hefur aukist verulega á undanförnum áratugum og eru þau oft umtalsverður hluti eigna við skilnað. Samkvæmt hjúskaparlögum gildir skýr meginregla um helmingaskipti hjúskapareigna við fjárslit milli hjóna en samhliða er gert ráð fyrir að viss réttindi geti fallið utan skipta, sbr. ákvæði 2. tl. 1. mgr. 102. gr. laganna um lífeyrisréttindi.  

Landsréttur hefur hafnað því að gera greinarmun á lífeyrisréttindum eftir eðli þeirra en á málstofunni verður fjallað um hvort tími sér kominn til að breyta lögum og hvernig slíkar breytingar gætu litið út. 

Málstofustjóri  

  • Gísli G. Hall, lögmaður á Mörkinni lögmannsstofu.  

Framsögumenn  

  • Hrefna Friðriksdóttir, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands. 
  • Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður á SGG lögstofu. 
  • Þórey Þórðardóttir, lögmaður og framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.  

 ______________________________________________________________________________________________________________________________ 

VI. Sannleikurinn er fyrsta fórnarlambið – fjórða vald á tímum falsfrétta og upplýsingaóreiðu - rökstólar

Fjallað verður um stöðu fjölmiðla sem fjórða valdsins, þær ógnir sem steðja að fjölmiðlafrelsi á Íslandi og áhrif á lýðræðislega umræðu. Er tjáningarfrelsi fjölmiðla og ritstjórnarlegt sjálfstæði nægilega tryggt í núgildandi löggjöf? Hvernig má bregðast við falsfréttum og upplýsingaóreiðu án þess að grafa undan frelsi fjölmiðla?  

Stjórnandi 

  • Halldóra Þorsteinsdóttir, héraðsdómari og dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík. 

Þátttakendur 

  • Geir Gestsson, lögmaður á Mörkinni lögmannsstofu.
  • Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. 
  • Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands. 
  • Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri. 

 ______________________________________________________________________________________________________________________________ 

 

Allar málstofurnar verður hægt að sækja í fjarfundi

Skráning á Lagadaginn 2025 

Í lagadagsnefnd eru: 

F.h. LMFÍ: Dagmar Helga Einarsdóttir og Bergrún Elín Benediktsdóttir.

F.h. LÍ: Oddur Ástráðsson og Oddur Þorri Viðarsson.

F.h. DÍ: Finnur Vilhjálmsson og Sigríður Rut Júlíusdóttir.

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu